West Ham tók á móti Manchester United á London Stadium í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en Benrahma kom West Ham yfir þegar hálftími var liðinn af leiknum.
Ronaldo jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar en hann var ansi hættulegur í leiknum og ógnaði mikið. Lokamínúturnar í leiknum voru ótrúlegar en Lingard kom gestunum yfir undir lok leiks með frábæru marki en hann var nýkominn inn á. West Ham fékk vítaspyrnu í uppbótartíma og var Mark Noble skipt inn á til að taka spyrnuna en David de Gea varði spyrnuna og tryggði Manchester United þrjú stig.
Ronaldo var að skora sitt þriðja deildarmark í aðeins tveimur leikjum eftir endurkomu sína. Þessi 36 ára gamli leikmaður virðist enn þá vera í heimsklassa.
Hann hefur í tveimur leikjum skorað jafn mikið og Alexis Sanchez skoraði í 32 leikjum fyrir United í deildinni. Sanchez kom til United í janúar árið 2018 og átti afar erfitt uppdráttar.
Ronaldo hefur einnig jafnað við markaskorun Angel Di Maria sem árið 2014 gekk í raðir United og skoraði aðeins 3 mörk í 27 deildarleikjum.