Leik Vendsyssel og Lyngby í dönsku B-deildinni var hætt eftir að leikmaður Vendsyssel fór í hjartastopp á vellinum. Atvikið minnti á atvikið hræðilega á EM í sumar þegar Christian Eriksen, leikmaður Danmerkur, fór í hjartastopp á vellinum í fyrsta leik gegn Finnum.
Þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum hneig Abou Ali niður á vellinum. Honum var veitt skyndihjálp á vellinum og hann fluttur á spítala.
Leiknum var ekki haldið áfram og ekki vitað að hvenær hann verður kláraður. Staðan var 1-1 þegar atvikið óhugnlega átti sér stað.
Danski sóknarmaðurinn Wessam Abou Ali var að spila sinn fyrsta leik fyrir Vendsyssel en hann kom til félagsins frá Silkeborg í sumar. Leikmaðurinn er 22 ára gamall.
Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby og Sævar Atli Magnússon og Fredrik Schram eru samningsbundnir félaginu.