Stígamót þáðu þrjár milljónir í greiðslu frá Kolbeini Sigþórssyni sem hluta af uppgjöri vegna kynferðis- og ofbeldisbrota hans haustið 2017.
Í fréttum RUV síðastliðið fimmtudagskvöld steig Þórhildur Gyða Arnarsdóttir fram og lýsti því að hún hefði lent í áreitni og ofbeldi af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu. „Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund. Þar sem það skarst annar einstaklingurinn inn í. Ég var með áverka í tvær til þrjár vikur eftir hann. Strax daginn eftir fæ ég áverkavottorð og fer síðan niður á lögreglustöð og legg fram kæru. Við vorum tvær sem urðum fyrir því sama af hans hálfu þetta umrædda kvöld og við fórum saman að kæra,“ sagði Þórhildur í fréttum RUV.
Þórhildur lýsti því þá jafnframt að faðir hennar hefði síðar sett sig í samband við KSÍ þegar ljóst varð að Kolbeinn yrði áfram liðsmaður landsliðs Íslands í knattspyrnu. Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, mun þá hafa fullvissað foreldrar Þórhildar og hana sjálfa um að tekið yrði á málinu af festu innan KSÍ. Þótti Þórhildi margt vanta upp á svo að það loforð gæti talist efnt þegar hún steig fram í viðtali við RÚV.
Um helgina kom svo á daginn að fótboltamaðurinn umræddi væri Kolbeinn Sigþórsson.
Samkvæmt Þórhildi lauk máli hennar og Kolbeins með umræddri greiðslu miskabóta. „Ég á í raun ekkert við hann persónulega að sakast. Samt sem áður var ég ekki að búast við því að hann yrði valinn aftur í landsliðið af því að KSÍ veit af ofbeldinu og velur að vera með gerendur ofbeldis innan sinna raða,“ sagði Þórhildur í Kastljósviðtalinu.
Guðni Bergsson hélt því fram í viðtali í Kastljósþætti fyrir helgi að engar tilkynningar hefðu borist sambandinu um kynferðisbrot. Síðar dró hann þau orð til baka og sagðist ekki hafa farið rétt með staðreyndir. Guðni sagði síðar starfi sínu lausu sem formaður KSÍ og stjórn sambandsins fylgdi svo fast á eftir. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sem á mánudaginn sagðist ekki ætla að víkja, tilkynnti í dag að hún væri komin í leyfi.
Fram hefur komið í fréttum að faðir Þórhildar óskaði eftir því við Guðna að farið yrði með málið sem trúnaðarmál.
Samkvæmt öruggum heimildum DV námu greiðslurnar til Þórhildar og annars brotaþola sem ekki hefur stigið fram opinberlega yfir tíu milljónum, en þetta hefur þó ekki fengist staðfest frá málsaðilum. Til viðbótar við greiðslur til kvennanna greiddi Kolbeinn svo Stígamótum þrjár milljónir króna.
Í skriflegu svari við fyrirspurn DV segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, að Stígamót hafi árið 2018 þegið styrk upp á þrjár milljónir króna. Steinunn segir styrkinn hafa verið „fyrir tilstilli Þórhildar Gyðu,“ og verið hluti af miskabótasamkomulagi hennar.
Uppfært: 16:20
Í yfirlýsingu Kolbeins sem send var á fjölmiðla skömmu eftir að þessi frétt var birt staðfestir Kolbeinn jafnframt að umrædd greiðsla hafi átt sér stað. „Ég kannaðist ekki við að hafa áreitt þær eða beitt ofbeldi og neitaði sök. Hegðun mín var hins vegar ekki til fyrirmyndar og baðst ég afsökunar á henni. Ég iðraðist og tók á því ábyrgð og var tilbúinn að leita sátta. Þær höfðu uppi kröfu um afsökunarbeiðni og greiðslu sem ég féllst á. Auk þess greiddi ég 3 milljónir króna til samtakanna Stígamóta og studdi þannig mikilvæga baráttu samtakanna gegn kynferðisofbeldi,“ sagði Kolbeinn í yfirlýsingunni.