Þeir Kolbeinn Sigþórsson og Rúnar Már Sigurjónsson verða ekki með A-landsliði karla í komandi landsleikjum gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi. Þetta herma heimildir DV.
Kolbeinn var tekinn út úr hópnum af KSÍ en Rúnar valdi sjálfur að draga sig úr honum.
Mikill stormur hefur verið í kringum knattspyrnusambandið síðustu daga vegna meintra kynferðisbrota landsliðsmanna.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í dag. Stjórn KSÍ hefur fundað alla helgina. Guðni hefur fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum eftir að Þórhildur Gyða Arnardóttir steig fram í fréttum RÚV á föstudag og greindi frá því að árið 2017 hafi þekktur landsliðsmaður áreitt hana kynferðislega og ráðist svo á hana, og sagði að Guðna og KSÍ hafi verið vel kunnugt um málið.