Gagnrýni Ragnars Sigurðssonar á unga leikmenn á Íslandi er ekki ástæða þess að hann er ekki í nýjasta landsliðshópi Íslands. Arnar Þór Viðarsson hefur opinberað landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni í undankeppni HM 2022. Hópurinn sem opinberaður var í dag er áhugaverður. Liðið mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í þremur heimaleikjum en fyrsti leikur er á fimmtudag í næstu viku.
Arnar segir að skoðanir Ragnars sem nú leikur með Fylki hafi ekkert með valið að gera, Ragnar hefur verið einn besti varnarmaður liðsins um langt skeið en hann er enn að komast í form eftir langt frí frá alvöru fótbolta.
„Það væri mjög dapurt ef menn mættu ekki hafa sínar skoðanir. Margir af okkar ungu leikmönnum eru á svipuðum stað eða betri stað en Aron Einar og Jói Berg á þessum aldri. Það eru mjög fáir leikmenn sem byrja í aðalliði Barcelona og eru þar allan sinn feril,“ sagði Arnar Þór.
„Það er eitt af okkar grunngildum að við viljum fá þátttöku og hreinskilni. Við viljum fá það frá okkar leikmönnum að þeir segi sínar skoðanir. Raggi var með okkur í mars og ætlaði að vera með okkur í júní. Ef Raggi er upp á sitt besta, þá er hann einn af okkar bestu knattspyrnumönnum,“ sagði Arnar.
„Sama hvaða skoðanir hann hefur,“ bætti Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari við málið.