Allur leikmannahópur karlaliðs KR í knattspyrnu gæti verið á leið í sóttkví eftir að leikmaður liðsins greindist með COVID-19 veiruna í gær.
„Það er frí á æfingu hjá okkur í dag, það hefur enginn verið sendur í sóttkví en við bíðum frétta þess efnis. Það eru bara allir heima hjá sér á meðan við bíðum eftir tíðindum,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR í samtali við 433.is í dag.
Leikmaðurinn hafði verið sendur í sóttkví í gær og eftir sýnatöku kom í ljós að leikmaðurinn væri greindur með COVID-19 veiruna.
Samvkæmt leikjaplani KSÍ á KR liðið að mæta ÍA um helgina en honum verður frestað verði leikmaður KR sendur í sóttkví, umræddur leikmaður sem greindist með veiruna var í byrjunarliði KR gegn HK á mánudagskvöld. Þar vann KR 1-0 sigur á HK í Kórnum.
Fjöldi smita hefur verið mikill á Íslandi síðustu daga og vikur, stærstur hluti þjóðarinnar er hins vegar bólusettur og veikindin ekki mikil hjá stærstum hluta.
Allur leikmannahópur ÍBV í Lengjudeild karla var sendur í sóttkví í gær vegna smita í leikmannahópi liðsins.