Chelsea virðist hafa samþykkt tilboð Roma í framherjann Tammy Abraham ef marka má fréttir Goal. Klásúla verður í samningnum og mun Chelsea eiga möguleika á að kaupa leikmanninn aftur í framtíðinni en hann er úr akademíu Chelsea.
Í frétt Goal segir að Abraham hafi talað við Jose Mourinho, stjóra Roma, og lítist vel á að fara til Ítalíu en hann á enn eftir að semja við ítalska félagið um kaup og kjör.
Chelsea hefur ansi gott úrval af framherjum þessa stundina með komu Romelu Lukaku og hefur Tuchel fullan skilning á því að Tammy sé ósáttur hjá félaginu og vilji fá að spila meira.
„Tammy var ekki sáttur við seinni helming síðasta tímabils. Það er eðlilegt að honum líði svona og kannski er það mér að kenna að hafa ekki treyst honum á sama hátt og ég treysti öðrum leikmönnum,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi fyrir Ofurbikarinn.
„Það er bara spurning hvort hann vilji reyna að berjast fyrir sæti í liðinu eða hvort hann vilji skipta um félag til að fá meiri spilatíma, ég skil hann vel ef hann ákveður það.“