Breiðablik er komið áfram í 2. umferð Sambandsdeildar UEFA eftir sigur á Racing Union í seinni leik liðanna.
Fyrri leik liðanna, í Lúxemborg, lauk með 2-2 jafntefli.
Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn í kvöld. Þó voru Blikar aðeins sterkari aðilinn.
Snemma í seinni hálfleik kom Jason Daði Svanþórsson heimamönnum svo yfir. Hann skoraði þá eftir fyrirgjöf Davíðs Ingvarssonar.
Þegar 20 mínútur voru til leiksloka fékk Dwayn Holter, leikmaður Racing, að líta rautt spjald þegar hann braut á Árna Vilhjálmssyni sem aftasti maður.
Árni fór svo langt með sigurinn fyrir Blika er hann skoraði þegar stundarfjórðungur lifði leiks.
Lokatölur 2-0 fyrir Breiðablik. Liðið mætir Austria Vín í 2. umferð.