Stjórnarformaður danska B-deildarliðsins Esbjerg, Michael Kalt, segir að stjórnin standi við bakið á þjálfara liðsins, Peter Hyballa, þrátt fyrir ásakanir um andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart leikmönnum.
Hinn þýski Hyballa tók við Esbjerg fyrir rúmum mánuði síðan. Ólafur Kristjánsson var áður stjóri liðsins en hann var látinn fara í vor.
Þjóðverjinn er sagður allt annað en vinsæll á meðal leikmanna liðsins sem vilja sjá hann fara. Hann er sagður beita afar óhefðbundnum og hörðum aðferðum á leikmenn, bæði andlegum og líkamlegum. Hann á til að mynda að hafa klipið um brjóstkassa leikmanns og sagt ,,þú ert með stærri brjóst en konan þín.“
Kalt segir þó að stjórnin muni styðja við Hyballa.
,,Við munum styðja Peter að fullu og ég held að ósættið endurspegli ekki skoðanir allra leikmanna. Það verður alltaf hluti af leikmönnum sem er óánægður með félagið vegna breytinga á leikstílnum. En við verðum að virða hvorn annan, Peter verður minntur á það,“ sagði stjórnarformaðurinn við BT.
Kalt bætti einnig við að menningarmunur gæti verið á milli landa. Hyballa hefur starfað í Þýskalandi, H0llandi, Póllandi og Slóvakíu svo eitthvað sé nefnt.
,,Er það í lagi að niðurlægja einhvern andlega? Nei. Er mismunandi hvernig fólk skilgreinir andlega niðurlægingu? Klárlega. Það eru hlutir sem þú getur ekki sagt í Danmörku sem ég lofa ykkur að yrðu ekki álitnir sem andlega niðurlægjandi í Bandaríkjunum. En það skiptir ekki máli. Ef að venjurnar eru svona í Danmörku þá aðlögum við okkur.“
Ísak Óli Ólafsson og Andri Rúnar Bjarnason eru báðir á mála hjá Esbjerg.