Tveir leikmenn Víkings í efstu deild karla hafa verið sendir í sóttkví eftir að hafa umgengist leikmann Fylkis sem greindist með COVID-19 veiruna.
433.is greindi frá því í gær að fjöldi leikmanna Fylkis væri nú í sóttkví vegna COVID-19 smits hjá leikmanni félagsins.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings staðfesti í samtali við 433.is rétt í þessu að tveir leikmenn liðsins væru farnir í sóttkví fram í næstu viku.
Verða leikmennirnir tveir ekki með gegn ÍA í leik í efstu deild á mánudag. Leikmennirnir hafa fengið bólusetningu en ekki nógu langur tími hafði liðið frá sprautunni til að þeir væru flokkaðir sem full bólusettir.
Um og yfir 15 leikmenn Fylkis eru í sóttkví vegna smitsins og því fer leikur liðsins gegn HK um helgina ekki fram.