Tveir leikir hafa farið fram í 6. umferð Pepsi Max-deildar kvenna það sem af er degi. Deildin heldur áfram að vera óútreiknanleg.
Óvænt í Kópavogi
Keflavík gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistara Breiðabliks í Kópavogi.
Aerial Chavarin kom Keflavík yfir á 8. mínútu leiksins. Hafrún Rakel Halldórsdóttir jafnaði fyrir heimakonur mjög skömmu síðar. Ísabel Jasmín Almarsdóttir kom gestunum aftur yfir um miðjan fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 1-2.
Chavarin var svo aftur á ferðinni þegar hún innsiglaði sigur Keflvíkinga á 72. mínútu. Lokatölur 1-3 fyrir Keflavík.
Breiðablik er í öðru sæti með 12 stig. Keflavík lyftir sér upp í sjötta sæti, tímabundið hið minnsta, með 6 stig.
Toppliðið tapaði í fyrsta sinn
ÍBV tók á móti toppliði Selfoss. Þær síðarnefndu töpuðu sínum fyrsta leik í mótinu.
Brenna Lovera kom Selfyssingum yfir strax á 2. mínútu. Þóra Björg Stefánsdóttir jafnaði um tíu mínútum fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var 1-1.
Delaney Baie Pridham skoraði sigurmark Eyjakvenna um miðjan seinni hálfleik. Lokatölur 2-1.
ÍBV er í fjórða sæti deildarinnar með 9 stig. Selfoss er enn á toppi deildarinnar með 13 stig.