Einn leikur fór fram í Lengjudeild karla í kvöld. ÍBV og Kórdrengir gerðu þá jafntefli í hörkuleik í Eyjum.
Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, miðvörður Kórdrengja, fékk beint rautt spjald eftir handalögmál á 13. mínútu. Þrátt fyrir það komust gestirnir yfir eftir rúman hálftíma leik. Þá skoraði Þórir Rafn Þórisson. Staðan í hálfleik var 0-1.
Tíu leikmenn Kórdrengja tvöfölduðu forystu sína í upphafi seinni hálfleiks þegar Arnleifur Hjörleifsson skoraði frábært mark með skoti af löngu færi. Felix Örn Friðriksson minkaði muninn fyrir heimamenn á 60. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar var Sito svo búinn að jafna fyrir þá.
Hvorugu liðinu tókst þó að finna sigurmark. Lokatölur 2-2.
Kórdrengir eru í fimmta sæti með 8 stig. ÍBV er í sætinu fyrir neðan með stigi minna.