8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna kláruðust í kvöld með fjórum leikjum. Breiðablik, FH og Þróttur Reykjavík eru komin í undanúrslit.
Stórsigur Blika
Breiðablik tók á móti Aftureldingu og vann stórsigur.
Agla María Albertdóttir og Vigdís Edda Friðriksdóttir komu Blikum í 2-0 með mörkum með stuttu millibili eftir rúmlega stundarfjórðung.
Agla María var aftur á ferðinni með þriðja mark heimakvenna um miðjan seinni hálfleik. Birta Georgsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir bættu svo við mörkum áður en leiknum lauk. Lokatölur 5-0.
Öruggt hjá FH í Árbænum
FH heimsótti Fylki og vann öruggan sigur.
Selma Dögg Björgvinsdóttir kom gestunum yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
Brittney Lawrance bætti svo við marki á 65. mínútu. Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir fékk að líta rautt spjald þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks. Í kjölfarið kláraði FH leikinn með tveimur mörkum frá Sunnevu Hrönn Sigurvinsdóttur og Elínu Björgu Norðfjörð Símonardóttur.
Bryndís Arna Níelsdóttir klóraði í bakkann fyrir Fylki í lok leiks. Lokatölur 1-4.
Frábær seinni hálfleikur Þróttar
Þróttur vann mjög góðan sigur á Selfossi á útivelli.
Brenna Lovera kom heimakonum yfir á 13. mínútu. Það var eina mark fyrri hálfleiks.
Lorena Yvonne Baumann jafnaði fyrir Þrótt snemma í seinni hálfleik. Katherine Amanda Cousins kom þeim svo yfir á 63. mínútu.
Shaelan Grace Murison Brown skoraði þriðja mark gestanna þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Guðrún Ólafía Þorsteinsdóttir innsiglaði svo 1-4 sigur Þróttar í lok leiks.