Haukar, Völsungur og Þór eru komin í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir sigra á andstæðingum sínum í 32-liða úrslitunum í dag.
Þór lagði Grindavík
Þór tók á móti Grindavík á Akureyri og komst áfram með sigri.
Jakob Snær Árnason kom heimamönnum yfir strax á 4. mínútu. Staðan var 1-0 þar til eftir klukkutíma leik þegar Alvaro Montejo tvöfaldaði forystu Þórsara.
Mirza Hasecic minnkaði muninn fyrir Grindavík þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Nær komust þeir þó ekki. Lokatölur 2-1.
Haukar fóru góða ferð norður
Haukar fóru norður og sóttu góðan sigur á heimavelli KF.
Kristófer Dan Þórðarson kom gestunum yfir á 5. mínútu. Cameron Botes jafnaði fyrir KF strax fimm mínútum síðar.
Það var svo Tómas Leó Ásgeirsson sem gerði sigurmark Hauka á 68. mínútu. Lokatölur 1-2.
Völsungur áfram eftir sigur á Leikni F
Völsungur tók á móti Leikni Fáskrúðsfirði á Húsavík.
Mörkin létu bíða eftir sér í leiknum. Björgvin Stefán Pétursson kom Leikni yfir á 85. mínútu. Sæþór Olgeirsson jafnaði fyrir heimamenn stuttu síðar. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að fara í framlengingu.
Þar skoraði Jakob Héðinn Róbertsson sigurmark fyrir Völsung á 13. mínútu.