Gylfi Þór Sigurðsson er launahæsti íþróttamaður í sögu lands og þjóðar en á síðasta ári var kappinn með 850 milljónir króna í árslaun hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Gylfi Þór er ekki aðeins útsjónarsamur inni á vellinum því utan hans er hann þekktur fyrir að vera skynsamur í fjárfestingum en helst kýs hann að fjárfesta í fasteignum og sjávarútvegi.
Þannig á Gylfi Þór útgerðarfélagið Blakknes ásamt föður sínum, Sigurði Aðalsteinssyni og eldri bróður, Ólafi Má Sigurðssyni. Á dögunum greindu Fiskifréttir frá því að félagið hafi fjárfest í nýjum bát sem gerður verður út frá Sandgerði.
Þá hefur DV fjallað um íbúðasafn Gylfa Þórs sem er veglegt í meira lagi og er skráð á fyrirtæki sem er í 60% eigu knattspyrnukappans og 20% í eigu föður hans og bróðurs. Íbúðirnar voru flestar í útleigu en ein eign skar sig úr – 107 fermetra íbúð í Þorrasölum 17 í Kópavogi. Þá eign hefur Gylfi og eiginkona hans Alexandra Helga Ívarsdóttir sjálf dvalið í.
Nú dregur þó til tíðinda því íbúðin er auglýst til sölu og er ásett verð 69,9 milljónir króna. Í fyrri umfjöllun DV kom fram að eignin hefði verið keypt á 42,5 milljónir króna árið 2014 og því hefur verið um góða fjárfestingu að ræða.
Eignin er glæsileg í alla staði og ljóst er að vel hefur farið um Gylfa Þór í Salahverfinu.