Valur vann 3-1 sigur á Breiðabliki í efstu deild karla á miðvikudag en leikurinn á Hlíðarenda var ansi áhugaverð rimma. Blikar sóttu mikið í leiknum en færanýting Blika var slök og reynt lið Vals gekk á lagið. Tölfræðin úr leiknum er hreint ótrúleg.
Breiðablik var 66 prósent með boltann í leiknum, Breiðablik hélt boltanum í rúmar 35 mínútur í leiknum en Valsmenn aðeins í tæpar 19 mínútur.
XG tölfræðin sem margir hafa gaman af var Blikum í hag, liðið skoraði aðeins eitt mark í leiknum en XG tölfræði liðsins var 2,72 mörk. Valsmenn sem skoruðu þrjú mörk í leiknum voru með XG tölfræði upp á 1,67 mörk. „Expected goals“ segir til um hversu mörg góð færi lið fékk til þess að skora í leiknum.
Blikar héldu boltanum í 94 skipti í leiknum, í ellefu skipti héldu Blikar boltanum í meira en 45 sekúndur. Valsmenn gerðu það aldrei. Valsmenn héldu boltanum í 75 skipti í leiknum.
Blikar skutu 15 sinnum að marki Vals en fjögur fóru á markið, Valsmenn skutu átta sinnum að marki Blika og fóru fimm á markið.
Ólafur Jóhannesson sérfræðingur Stöð2 Sport sagði að Breiðablik hefði tapað baráttunni á miðsvæðinu, liðinu hefði vantað stál og fleiri kíló á miðsvæðið. En tölfræðin segir aðra sögu, bæði lið unnu boltann 55 sinnum í leiknum. Blikar unnu boltann í 42 skipti á vallarhelmingi Vals en Valur vann boltann 22 sinnum á vallarhelmingi Blika.
Valsmenn sendu boltann 271 sinni í leiknum og voru 72 prósent sendinga heppnaðar. Blikar sendu boltann 585 sinnum í leiknum og heppnuðust 85 prósent sendinga þeirra. Blikar sendu boltann 213 sinnum fram völlinn en Valsmenn í 123 skipti.
Þrátt fyrir yfirburði á flestum stöðum vallarins tapaði Breiðablik leiknum en Valsmenn sitja á toppi deildarinnar þrátt fyrir að hafa fengið gagnrýni fyrir slaka frammistöðu.