Það er óeining í franska landsliðshópnum nú nokkrum dögum fyrir Evrópumótið, franskir fjölmiðlar segja að það andi köldu á milli Kylian Mbappe og Olivier Giroud.
Ósætti þeirra á milli sást greinilega í æfingaleik gegn Búlgaríu á þriðjudag, þar vann Frakkland fínan 3-0 sigur.
Í leiknum tengdu Mbappe og Giroud ekki vel og var hinn stóri og stæðilegi Giroud verulega ósáttur með Mbappe. „Stundum tekur þú hlaup en boltinn kemur ekki, kannski getum við fundið hvorn annan betur,“ sagði Giroud að leik loknum og orðum hans beint til Mbappe.
Líkamstjáning Mbappe í leiknum var slæm og var hann ósáttur þegar Didier Deschammps tók hann af velli. Mbappe var svo brjálaður út í Giroud fyrir að hafa verið að ræða málin við fjölmiðla.
Segja franskir miðlar að Mbappe hafi verið verulega óhress og íhuga að boða blaðamannafund til að segja frá óánægju sinni, franska sambandinu tókst að koma í veg fyrir það.
Frakkar urðu Heimsmeistarar fyrir þremur árum og eru til alls líklegir á EM ef stemmingin í hópnum er í lagi.