Fjórir leikir fóru fram í 6. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. Mikil dramatík var í tveimur leikjum.
Fram rúllaði yfir Selfoss á útivelli
Selfoss tók á móti Fram og átti aldrei möguleika.
Fred Saraiva kom gestunum yfir eftir rúmar tíu mínútur og bætti við marki eftir hálftímaleik. Staðan í hálfleik var 0-2.
Albert Hafsteinsson gerði svo þriðja mark Framara snemma í seinni hálfleik. Guðmundur Magnússon kom Fram í 0-4 með marki úr vítaspyrnu þegar 20 mínútur lifðu leiks. Þar við sat.
Fram er á toppi deildarinnar með 18 stig, fullt hús. Selfoss er í næstneðsta sæti með 4 stig.
Ótrúleg endurkoma Fjölnismanna
Fjölnir tók á móti Víkingi Ólafsvík í Grafarvoginum og vann nauman sigur eftir ótrúlega dramatík.
Þorleifur Úlfarsson kom Víkingum yfir seint í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 0-1.
Það stefndi allt í mjög óvæntan sigur botnliðsins þar til Fjölnir setti tvö mörk á þá seint í uppbótartíma. Fyrst skoraði Ragnar Leósson á 94. mínútu og svo Hilmir Rafn Mikaelsson á 95. mínútu. Mögnuð endurkoma staðreynd og lokatölur 2-1.
Fjölnir er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig. Víkingur er á botninum með 1 stig.
Grindavík með góðan sigur
Grindavík vann útisigur á Þrótti Reykjavík.
Sigurður Bjartur Hallsson kom gestunum yfir um miðjan fyrri hálfleik. Daði Bergsson jafnaði fyrir Þrótt á 37. mínútu. Staðan í hálfleik var 1-1.
Oddur Ingi Bjarnason kom Grindavík aftur yfir eftir um tíu mínútur í seinni hálfleik. Laurens Symons skoraði svo þriðja mark þeirra þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Sam Ford minnkaði muninn fyrir heimamenn úr víti í lokin. Lokatölur urðu 1-3.
Grindavík er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig. Þróttur er í því tíunda með 4 stig.
Dramatískur sigur Kórdrengja
Kórdrengir tóku á móti Gróttu í Breiðholtið og úr varð spennandi leikur.
Davíð Þór Ásbjörnsson kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðung. Pétur Theódór Árnason var þó ekki lengi að jafna fyrir Gróttu. Staðan í hálfleik var 1-1.
Það stefndi í 1-1 jafntefli þegar Davíð skoraði sitt annað mark og þar með sigurmark Kórdrengja seint í uppbótartíma. Lokatölur urðu 2-1.
Kórdrengir eru í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig. Grótta er í því fimmta með 8 stig.