Tveir leikir hafa farið fram í 2. deild karla það sem af er degi. Leiknir Fáskrúðsfirði vann Reyni Sandgerði og KV sigraði Fjarðabyggð.
Imanol Vergara Gonzalez kom Leikni yfir á 18. mínútu á heimavelli í dag. Hann skoraði svo annað mark þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiksins. Rétt fyrir leikhlé var svo mikið fjör. Heiðar Snær Ragnarsson kom heimamönnum í 3-0 á 43. mínútu en Elton Renato Livramento Barros skoraði svo mörk fyrir Reyni stuttu síðar. Það seinna af vítapunktinum. Marteinn Már Sverrison innsiglaði sigur Leiknis um miðjan seinni hálfleik.
KV vann Fjarðabyggð svo 2-0 á heimavelli. Því miður býr fréttaritari ekki yfir upplýsingum um markaskorara í leiknum að svo stöddu.
Leiknir er með 3 stig í tíunda sæti, Reynir með 6 stig í fjórða sæti, KV með 8 stig í öðru sæti og Fjarðabyggð með 1 stig í neðsta sæti.
Upplýsingar um markaskorara fengust á Úrslit.net.