Þróttur Reykjavík vann stórsigur á Stjörnunni á útivelli í 5. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir kom gestunum yfir eftir rúman stundarfjórðung eftir fyrirgjöf Andreu Rutar Bjarnadóttur. Þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks fékk Þróttur vítaspyrnu. Katherine Amanda Cousins steig á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan í hálfleik var 0-2.
Snemma í seinni hálfleik fóru gestirnir úr Laugardalnum svo langt með að gera út um leikinn. Þá skoraði Katherine Amanda annað mark sitt með skalla eftir hornspyrnu. Lea Björt Kristjánsdóttir kom Þrótti í 0-4 eftir rétt rúman klukkutíma leik. Fimmta mark þeirra skoraði svo Shaelan Grace Murison Brown.
Stjarnan klóraði í bakkann með marki frá Hildigunni Ýr Benediktsdóttur seint í leiknum. Lokatölur 1-5.
Þróttur fer upp í fjórða sæti deildarinnar, tímabundið hið minnsta, með sigrinum. Þær eru með 6 stig eftir fimm leiki. Stjarnan er með 4 stig í sjötta sætinu.