FH tók á móti KR í stórleik í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í dag. Síðarnefnda liðið tók öll þrjú stigin með sér aftur heim í Vesturbæ.
Gestirnir komust yfir strax á 8. mínútu leiksins. Þá skoraði Ægir Jarl Jónasson með skalla eftir horspyrnu sem Atli Sigurjónsson tók. KR-ingar voru mun betri í byrjun leiksins en heimamenn tóku við sér þegar leið á fyrri hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 0-1.
Snemma í seinni hálfleik fengu gestirnir víti. Þá braut Guðmundur Kristjánsson á Kjartani Henry Finnbogasyni innan teigs. Á punktinn steig Pálmi Rafn Pálmason og skoraði af öryggi framhjá Gunnari Nielsen.
FH-ingum tókst lítið að ógna KR það sem eftir lifði leiks og sigldu gestirnir sigrinum í hús. Lokatölur 0-2.
KR er nú komið í sjötta sæti deildarinnar með 7 stig. FH er með 10 stig í fjórða sæti. Þetta var þeirra fyrsti tapleikur á leiktíðinni.