Fylkir vann öruggan sigur á nýliðum Keflavíkur í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld.
Frans Elvarsson kom Keflvíkingum yfir eftir hornspyrnu strax á 3. mínútu. Um tíu mínútum síðar jöfnuðu heimamenn. Þá skoraði Djair Parfitt-Williams. Á 25. mínútu komust þeir svo yfir með marki Orra Hrafns Kjartnassonar. Staðan í hálfleik var 2-1 fyrir heimamenn.
Fylkir gekk svo frá leiknum á örstuttum kafla í seinni hálfleik. Fyrst skoraði Orri Sveinn Stefánsson eftir hornspyrnu á 60. mínútu. Aðeins um mínútu síðar kom Orri Hrafn þeim svo í 4-1 með sínu öðru marki. Gestirnir fengu víti þegar um 20 mínútur lifðu leiks. Joey Gibbs steig á punktinn og skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi Max-deildinni. Lokatölur urðu 4-2 fyrir Fylki.
Þetta var fyrsti sigur Fylkis í deildinni í ár. Liðið er nú með 5 stig í sjöunda sæti. Keflavík er með 3 stig í tíunda sæti.