Fimm leikir fóru fram í 3. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. ÍBV, Fram, Fjölnir, Kórdrengir og Þróttur unnu öll sína leiki.
ÍBV burstaði Aftureldingu í Mosó
Guðjón Pétur Lýðsson kom ÍBV yfir með marki úr vítaspyrnu eftir stundarfjórðung á útivelli í kvöld. Sito tvöfaldaði forystu Eyjamanna stuttu síðar. Gonzalo Zamorano kom þeim svo í 0-3 í lok fyrri hálfleiks. Gonzalo var aftur á ferðinni snemma í seinni hálfleiks með mark. Sito átti svo eftir að skora eitt mark í viðbót á 55. mínútu. Lokatölur 0-5 fyrir ÍBV. Þetta var fyrsti sigur ÍBV í mótinu. Afturelding er með 4 stig.
Öruggt hjá Fram
Indriði Áki Þorláksson kom Fram yfir á heimavelli gegn Þór á 14. mínútu. Kyle Douglas McLagan og Frederico Bello Saraiva bættu svo við tveimur mörkum fyrir heimamenn í lok fyrri hálfleiks. Indriði Áki skoraði sitt annað mark um miðbik seinni hálfleiks. Bjarni Guðjón Brynjólfsson minnkaði muninn fyrir Þór í uppbótartíma. Lokatölur 4-1. Fram er með fullt hús stiga. Þór hefur 3 stig.
Góður útisigur Fjölnis
Fjölnir vann Grindavík á útivelli. Ragnar Leósson kom þeim yfir á 57. mínútu og Hilmir Rafn Mikaelsson tvöfaldaði forystuna skömmu síðar. Lokatölur 0-2. Fjölnir er með fullt hús stiga. Grindavík er með 3 stig.
Víkingur Ó. enn án stiga eftir tap gegn Kórdrengjum
Loic Cedric Mbang Ondo kom Kórdrengjum yfir á útivelli gegn Víkingi Ólafsvík eftir tæpar 20 mínútur. Davíð Þór Ásbjörnsson gerði tvö mörk til viðbótar fyrir gestina í fyrri hálfleik. Harley Willard minnkaði muninn úr vítaspyrnu seint í leiknum. Lokatölur 1-3. Kórdrengir eru með 4 stig en Ólsarar eru án stiga.
Þróttur náði í sín fyrstu stig
Daði Bergsson kom Þrótti yfir gegn Selfyssingum á 21. mínútu í Laugardalnum í kvöld. Lárus Björnsson tvöfaldaði forystu þeirra um miðbik seinni hálfleiks. Hrvoje Tokic minnkaði muninn fyrir gestina stuttu síðar. Hafþór Pétursson innsiglaði sigur Þróttar undir lok leiks. Bæði lið eru með 3 stig.