Heimir Hallgrímsson og hans íslenska þjálfarateymi lét af störfum hjá Al-Arabi í Katar í gær. Eftir tvö og hálft ár í starfi var samningur Heimis á enda. Freyr Alexandersson og Bjarki Már Ólafsson voru aðstoðarmenn hans.
Óvíst er hvaða skref Heimir tekur, dvölin í Katar gæti hafa opnað stórar dyr í Asíu en gengi Al-Arabi var upp og ofan undir stjórn Heimis.
Orðrómur er í gangi um að Heimir gæti tekið við Servette FC í Sviss en um er að ræða sögufrægt félag. Alain Geiger er í dag þjálfari Servette en hann lék 112 landsleiki fyrir Sviss áður en hann fór út í þjálfun. Liðið leikur í úrvalsdeildinni þar í landi.
Þá er vitað að félög í MLS deildinni hafa lengi horft til Heimis en árangur Íslands undir stjórn Heimis vakti mikla athygli í Bandaríkjunum.
Það er sagt ólíklegt að Heimir haldi til Íslands og taki við liði hér á landi, eftir frábæran árangur sem þjálfari Íslands opnuðust dyrnar í Katar og hefði hann áhuga á að starfa áfram erlendis.
Heimir er 53 ára gamall en hann var sagður þéna vel yfir 200 milljónir íslenskra króna á ári í Katar. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði Íslands er áfram í herbúðum Al-Arab og á hann eitt ár eftir af samningi sínum í Katar.