Pepsi Max-deild karla heldur áfram að rúlla í kvöld þegar 4. umferðin fer af stað með tveimur leikjum. Víkingur Reykjavík tekur á móti Breiðabliki og Leiknir fær Fylki í heimsókn. Eftir fremur dapra fyrstu umferð hafa áhorfendur fengið að sjá nóg af mörkum í síðustu tveimur umferðum. Við skulum vona að það haldi áfram.
Í Víkinni leiða Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson lið sín saman. Báðir þjálfarar eru þekktir fyrir það að vilja spila skemmtilegan og sóknarsinnaðan fótbolta þar sem fagurfræðin er í fyrirrúmi.
Víkingur hefur þó hingað til unnið hark-sigur gegn Keflvíkingum í leik sem fór 1-0 og gert jafntefli í rokleik uppi á Skaga í leik þar sem aðstæður buðu svosem ekki upp á mjög fallegan fótbolta. Víkingur vann Stjörnuna svo 2-3 í Garðabæ í síðustu umferð. Arnar hefur talað um það að meiri áhersla hafi verið lögð á varnarleikinn undanfarið en var uppi á teningnum í fyrra. Það mjög áhugavert að sjá hvernig Víkingar nálgast þennan leik.
Breiðablik kom nokkuð illa út úr fyrstu tveimur umferðunum. Þeir töpuðu sannfærandi gegn KR, 0-2, í fyrstu umferð og gerðu svo 3-3 jafntefli við nýliða Leiknis. Þeir sýndu þó virkilega góðan kafla í seinni hálfleik gegn Keflavík þar sem þeir unnu 4-0. Það voru þó hlutir sem hægt var að gera betur í þeim leik. Blikar áttu til að mynda erfitt með að stjórna leiknum í fyrri hálfleik. Þá eru leikmenn sem enn eiga eftir að sýna sitt rétta andlit. Til dæmis Árni Vilhjálmsson sem ógnaði lítið í síðasta leik.
Leiknir Reykjavík og Fylkir mætast í Breiðholti. Bæði lið eru með tvö stig eftir fyrstu þrjá leikina og munu því leggja allt í sölurnar til að ná sínum fyrsta sigri í kvöld.
Leiknir kom virkilega vel inn í mótið og gerði markalaust jafntefli við Stjörnuna á útivelli í leik þar sem þeir hefðu vel getað stolið sigrinum. Þeir komust svo 3-1 yfir gegn Breiðabliki í leiknum á eftir en misstu þann leik niður í 3-3. Í síðasta leik lentu þeir á vegg gegn KA og töpuðu 3-0, sannfærandi. Fylkir er án efa eitt af þeim liðum sem Leiknir setur sér það markmið að sigra, sérstaklega á heimavelli.
Fylkismenn hafa litið nokkuð vel út í byrjun tímabils en þá vantar stig á töfluna. Þeir misstu mann af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik í fyrsta leik gegn FH svo það er erfitt að dæma þá út frá þeim leik. Í leiknum á eftir komust þeir 0-2 yfir gegn HK í Kórnum en misstu þann leik niður í jafntefli. Í síðasta leik gerðu þeir 1-1 jafntefli gegn KR. Þar klikkuðu þeir á vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks sem og algjöru dauðafæri í lok leiks. Það voru þó klárlega ljósir punktar í þeim leik. Dagur Dan Þórhallsson og Unnar Steinn Ingvarsson voru flottir á miðjunni og Ásgeir Eyþórsson eins og klettur í vörninni. Þeir geta þó klárlega nagað sig í handabökin yfir því að vera ekki með aðeins fleiri stig eftir fyrstu leikina. Eins og Leiknir, þá fer Fylkir klárlega inn í þennan leik með aðeins eitt í huga. Sigur.
Báðir leikirnir fara fram klukkan 19:15 í kvöld.