Afturelding, KR og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir eru komin áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna eftir sigur á andstæðingum sínum í 3. umferðinni í dag.
Sara Dögg Ásþórsdóttir kom Gróttu yfir gegn Aftureldingu á 5. mínútu í Mosfellsbæ. Jade Arianna Gentile jafnaði fyrir heimakonur þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Janft var eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að fara í framlengingu. Tinna Jónsdóttir kom gestunum aftur yfir á 6. mínútu framleningarinnar. Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir jafnaði leikinn fyrir Aftureldingu á 22. mínútu hennar. Leikurinn fór því alla leið í vítaspyrnukeppni. Þar var mikil dramatík og þurfti að taka eina umferð af bráðabana. Afturelding vann vítaspyrnukeppnina að lokum 5-4 og fer því áfram.
Í Vesturbæ kom Harpa Helgadóttir Augnabliki yfir gegn KR eftir stundarfjórðung. Reynsluboltinn Katrín Ómarsdóttir jafnaði fyrir heimakonur rétt fyrir leikhlé. KR kláraði svo leikinn með tveimur mörkum undir lokin. Katrín tvöfaldaði forystuna með sínu öðru marki á 84. mínútu áður en Margrét Edda Lian Bjarnadóttir skoraði þriðja markið. Lokatölur 3-1.
Á Höfn töpuðu heimakonur í Sindra 0-2 fyrir Fjarðabyggð/Hetti/Leikni. Halldóra Birta Sigfúsdóttir kom gestunum yfir um miðjan fyrri hálfleik og Hafdís Ágústsdóttir skoraði seinna mark þeirra í lok fyrri hálfleiks.