2. umferð Lengjudeildar karla kláraðist nú rétt í þessu þegar Vestri vann magnaðan sigur á Þrótti Reykjavík í Laugardalnum. Gestirnir sneru leiknum við á lokamínútum leiksins.
Fyrri hálfleikurinn var rólegur og var markalaust þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
Fyrsta mark leiksins lét svo bíða eftir sér allt þar til tæpar 20 mínútur lifðu leiks. Þá skoraði Daði Bergsson fyrir heimamenn eftir sendingu frá Samuel George Ford.
Það stefndi í það að Þróttur myndi ná í sín fyrstu stig á tímabilinu þegar Pétur Bjarnason jafnaði fyrir Vestra á 86. mínútu. Hann náði þá frákasti inni á teig og setti boltann í netið. 1-1.
Vonbrigði Þróttara áttu bara eftir að færast í aukanna því gestirnir komust yfir í uppbótartíma með marki Nikolaj Madsen. Til að strá salti í sár heimamanna þá skoraði Luke Rae þriðja mark Vestra í blálokin. Markið hafði þá verið skilið eftir galopið þar sem markvörður Þróttar hafði farið fram í hornspyrnu.
Vestri er með fullt hús eftir tvo leiki. Þróttur þarf að bíða lengur eftir því að ná í sín fyrstu stig.