Fimm leikir fóru fram í 2. umferð 2. deildar karla í dag. Fullt af mörkum litu dagsins ljós.
Magni tók á móti Njarðvík á Grenivík. Dominic Vose kom Magna yfir í lok fyrri hálfleiks. Bergþór Ingi Smárason jafnaði fyrir gestina í upphafi þess síðari. Þegar um tíu mínútur lifðu leiks kom Magnús Þórðarson Njarðvíkingum yfir en Vose jafnaði með sínu öðru marki stuttu síðar. Lokatölur 2-2. Njarðvík er með 2 stig eftir tvo leiki. Magni er með 1 stig.
Haukar heimsóttu Leikni á Fáskrúðsfjörð. Eina mark fyrri hálfleiks gerði Guðmundur Arnar Hjálmarsson, leikmaður heimamanna, í eigið net. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir Hafnfirðinga. Stefán Ómar Magnússon jafnaði fyrir Leikni eftir klukkutíma leik. Stuttu síðar fór Tómas Leó Ásgeirsson þó langt með að gera út um leikinn fyrir gestina með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla. Staðan orðin 1-3. Hann fullkomnaði þrennu sína þegar tæplega stundarfjórðungur var eftir áður en Anton Freyr Hauks Guðlaugsson skoraði fimmta mark Hauka. Björgvin Stefán Pétursson klóraði í bakkann fyrir heimamenn í lok leiks. Haukar eru með 3 stig eftir tvo leiki. Leiknir er án stiga.
Þróttur Vogum fékk Fjarðabyggð í heimsókn. Andy Pew kom heimamönnum yfir um miðjan fyrri hálfleik en Vice Kendes jafnaði fyrir gestina þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Þróttur er með 2 stig eftir jafnmarga leiki. Fjarðabyggð er með 1 stig.
ÍR sótti Völsung heim á Húsavík. Arian Ari Morina kom þeim yfir eftir klukkutíma leik. Jorgen Pettersen tvöfaldaði forystu ÍR um tíu mínútum síðar. Sæþór Olgeirsson minnkaði muninn fyrir Völsung á 77. mínútu. ÍR er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Völsungur er með 3 stig.
KF vann 0-2 útisigur á Reyni Sandgerði. Omar Diouck skoraði fyrra markið á 50. mínútu og Theodore Develan Wilson það seinna. KF er með fullt hús eftir tvo leiki. Reynir er með 3 stig.