Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í dag og í kvöld. Grindavík og Haukar gerðu jafntefli. KR vann öruggan sigur á HK.
Christabel Oduro kom Grindavík yfir gegn Haukum um miðjan fyrri hálfleik. Þær leiddu með því marki í hálfleik. Þórey Björk Eyþórsdóttir jafnaði metin fyrir gestina þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Lokatölur urðu 1-1.
Haukar eru með 4 stig eftir tvær umferðir. Grindavík er með 2 stig.
KR gerði þá góða ferð í Kórinn fyrr í dag. Þær komust yfir snemma leiks er Gígja Valgerður Harðardóttir gerði sjálfsmark. Gestirnir úr Vesturbæ tvöfölduðu forskot sitt undir lok fyrri hálfleiks með marki frá Kathleen Rebecca Pingel. Staðan í hálfleik var 0-2. Kathleen gerði út um leikinn með sínu öðru marki eftir klukkutíma leik. Margrét Edda Lian Bjarnadóttir skoraði svo fjórða mark KR um tíu mínútum síðar áður en Lára Einarsdóttir klóraði í bakkann fyrir HK undir lok leiks. Lokatölur 1-4.
KR er með 3 stig eftir tvær umferðir. HK er með 1 stig.