Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis Reykjavík, var ansi svekktur út í leikmann sinn, Octavio Paez, fyrir rautt spjald sem sá síðarnefndi fékk í 3-0 tapi gegn KA í kvöld. Spjaldið fékk leikmaðurinn fyrir mjög ljóta tæklingu.
Paez fór í tveggja fóta tæklingu á Kára Gautasyni, leikmanni KA, seint í leiknum. Brotið var algjör óþarfi. Lítið var um að vera og boltinn á vallarhelmingi KA.
Sigurður fór ekki leynt með pirring sinn í garð leikmannsins í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik.
,,Ég er virkilega sár út í minn leikmann og ég vona að hann fái meira en einn leik í bann,“ sagði þjálfarinn.
Það verður væntanlega ákveðið á komandi dögum hvort að Paez fái þyngri refsingu en hið hefðbundna eins leiks bann.