Knattspyrnuheimurinn á Íslandi er enn að melta þau tíðindi að Rúnar Páll Sigmundsson hafi sagt upp starfi sínu sem þjálfari Stjörnunnar fyrir viku síðan. Tíðindin komu eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Rúnar hafði stýrt Stjörnunni í átta ár en hann er elskaður og dáður í Garðabæ, þá hefur Rúnar alla tíð verið Stjörnumaður og fjölskylda hans hefur sterk tengsl við félagið.
„Ég var með Rúnari í Stjörnunni þegar Arnór Guðjohnsen tók við Stjörnunni, Rúnar var fyrirliði. Þetta var árið 2002 og við vorum með mjög skemmtilegt lið, ég hef alltaf tekið það með mér að það er enginn maður á Íslandi sem elskar Stjörnuna jafn mikið og Rúnar Páll,“ sagði Benedikt Bóas Hinriksson blaðamaður á Fréttablaðinu í sjónvarpsþætti 433.is í gær.
Benedikt segir að faðir Rúnars sé gallharður Stjörnumaður. „Þegar við vorum í Stjörnunni var pabbi hans þarna, Sigmundur sem er einn mesti meistari sem ég hef kynnst utan vallar. Hann var alltaf nálægt liðinu og elskaði liðið, Rúnar elst upp við þetta. Rúnar skrifar síðan söguna fyrir Stjörnuna.“
Benedikt hefur oft rætt við Rúnar og hann getur ekki ímyndað sér hvað gekk á í Garðabænum sem varð til þess að Rúnar sagði upp störfum eftir einn leik í deildinni.
Benedikt ræddi við Rúnar árið 2014 og tók við hann viðtal þá fyrir Morgunblaðið „Það var forsíðuviðtalið, fjölskyldufaðirinn tekur á móti Mílanó risann. Að hlusta á Rúnar hvernig hann talaði með þessu stolti, það er ómögulegt að setja sig í þau spor hvað hefur gengið á. Ég átta mig ekki á því.“
„Sögurnar sem ganga núna um að Rúnari hafi verið settur stóllinn fyrir dyrnar, að hann megi spila hinum eða þessum. Mjög óeðlileg afskipti, það brengluð afskipti að hann kastar inn handklæðinu. Við erum á slæmum stað ef þetta er satt.“
Umræðuna má horfa á hér að neðan.