Nokkur Íslendingalið hafa leikið það sem af er degi. Hér er yfirferð yfir það helsta:
Birkir Bjarnason skoraði í 3-1 sigri Brescia á Spal í Serie B á Ítalíu. Þetta var fyrsta mark leiksins og kom það eftir tæpan hálftíma. Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í hóp hjá Brescia í dag. Liðið er í tíunda sæti, 2 stigum frá umspilssæti, þegar þrjár umferðir eru eftir.
Bjarki Steinn Bjarkason var ónotaður varamaður hjá Venezia sem vann Chievo, 3-1 í sömu deild. Óttar Magnús Karlsson var ekki í hóp hjá Venezia. Lið þeirra er í fimmta sæti, sem er umspilssæti.
Guðný Árnadóttir var á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá Napoli sem burstaði San Marino, 5-0, í Serie A á Ítalíu. Lára Kristín Pedersen sat allan tímann á varamannabekk Napoli. Liðið er í tíunda sæti deildarinnar, 3 stigum fyrir ofan fallsæti, þegar þrjár umferðir eru eftir.
Aron Bjarnason var þá ekki með Sirius í 1-1 jafntefli gegn Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið er með 8 stig eftir fjóra leiki.