Íslandsmeistarar Vals tóku á móti ÍA í fyrsta leik tímabilsins í Pepsi Max-deild karla. Eftir fremur dapran fyrri hálfleik tóku heimamenn leikinn í sínar hendur í þeim seinni og unnu þægilegan 2-0 sigur.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. Liðin fengu sitthvort hálffærið á fyrsta stundarfjórðungnum, Sigurður Egill Lárusson fyrir Val og Brynjar Snær Pálsson fyrir Skagamenn, en engin raunveruleg ógn að marki.
ÍA gerði virkilega vel í því að loka á aðgerðir Vals það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þeir pressuðu vel á heimamenn og gáfu meisturunum ekki nein tækifæri til að skapa sér almennileg marktækifæri. Þess má geta að Alex Davey, nýr leikmaður liðsins, var mjög öruggur í sínum aðgerðum í öftustu víglínu.
Skagamenn komu sér í nokkrar fínar góðar stöður síðari hluta fyrri hálfleiks og voru betri aðilinn á kafla. Þeim tókst þó ekki að koma boltanum í netið.
Markalaust var þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Það var allt annað lið Vals sem mætti í seinni hálfleik. Það er ljóst að Heimir Guðjónssnon hefur sagt einhver vel valin orð til að koma sínum mönnum í réttan gír.
Eftir 10 mínútna leik í seinni hálfleik skoraði Patrick Pedersen fyrsta mark leiksins, jafnframt sumarsins, þegar hann afgreiddi boltann smekklega framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki ÍA. Hann hafði fengið góða stungusendingu inn fyrir vörn gestanna frá Kaj Leo.
Valsmenn héldu áfram að stjórna leiknum og fékk nýr leikmaður þeirra, Christian Köhler, gott færi tæpum 10 mínútum síðar en flott marktilraun hans fór í stöngina.
Ísak Snær Þorvaldsson fékk sitt annað gula spjald, þar með rautt, fyrir brot á Hauki Páli Sigurðssyni um miðjan seinni hálfleikinn. Verðskuldað spjald.
Stuttu síðar gerði Kristinn Freyr Sigurðsson út um leikinn fyrir Val. Þá skoraði hann eftir virkilega flottan undirbúning þeirra Kaj Leo og Patrick.
Valsarar hefðu getað bætt við en þurftu að láta tveggja marka forystu sína duga, lokatölur 2-0.