Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Valerenga í Noregi, var gestur í þættinum 433.is sem var sýndur á Hringbraut í gærkvöldi.
Viðar Örn var ekki valinn í fyrsta landsliðshóp Arnars Þórs og Eiðs Smára, sem tekur þátt í fyrstu leikjum Íslands í undankeppni HM. Það kom Viðari ekki á óvart að vera ekki valinn.
„Ég var svona eiginlega nokkuð viss um að ég yrði ekki í hópnum. Þegar að maður veit að það er verið að fara tilkynna hóp og það er enginn búinn að heyra í manni þá veit maður að mögulega er maður ekki í hópnum. Ég var ekkert að pæla of mikið í þessu.“
Viðar hefði viljað fá skýringar fyrir því að hann hafi ekki verið valinn í landsliðshópinn.
„Það hefði alveg verið fínt ég viðurkenni það alveg, það er verra að heyra ekki neitt. Í síðasta landsliðsverkefni fannst mér ég eiga góðan leik, skoraði meðal annars. Að heyra síðan ekki neitt er svolítið sérstakt. Þeir (þjálfarateymið) taka ákvörðun um það, það er gott og blessað.“
En er Viðar með skýringu á því að hann hafi ekki verið valinn í þetta verkefni af Arnari og Eiði Smára?
„Það hlýtur náttúrulega bara að vera að þeim finnist aðrar týpur af leikmönnum henta betur í þetta heldur en ég og kannski bara vera betri leikmenn. Ég er alls ekki sammála því, mér finnst ég eiga að vera þarna, alveg 100%. Ég hef sýnt það svona aðallega með félagsliðum síðustu ár.“
Viðar hefur á tímum legið undir gagnrýni fyrir sínar frammistöður með íslenska landsliðinu. Þessar gagnrýnisraddir flugu ekki fram hjá honum.
„Það var alltaf minnst á að ég gæti ekki neitt með landsliðinu, við skulum bara vera hreinskilnir með að þær raddir komu upp á árunum 2014-2016 þegar landsliðið var líklega að spila sinn allra besta fótbolta.“
Á þessum tíma náði íslenska karlalandsliðið frábærum árangri og oftar en ekki var spilað á sama byrjunarliðinu leik eftir leik, sú aðferð virkaði.
„Þá mátti ekki breyta um einn leikmann, þá var ég alltaf á bekknum. Það er ekki það besta sem gerist fyrir leikmann að vera á bekknum hvern einasta leik, þú færð ekki mikið sjálfstraust við það. Svo fær maður kannski einn æfingaleik gegn Eistlandi, ekki búinn að spila fyrir landsliðið í tvö ár og þá er maður bara dæmdur harkalega.“
Það má skilja á Viðari að honum sárnaði sú umræða sem miðaði að því að gagnrýna hans frammistöður með íslenska landsliðinu.
„Það hefur alltaf verið einhver voða keppni að ná einhverjum lýsingarorðum út um hvernig ég hefði átt að vera með landsliðinu. Það vita það bara flestir að það mátti nánast engar breytingar gera í landsliðinu á þessum tíma, það var bara ákveðin leið sem virkaði. Maður hefur bara reynt að nýta sín tækifæri á bekknum eftir það allt saman. Stundum hefur það gengið alveg ágætlega og stundum ekkert alltof vel.“
Hann segir að þau rök sem hafi verið notuð til að gagnrýna hans frammistöður, haldi ekki vatni.
„Það eru engin rök að segja að maður hafi verið lélegur með landsliðinu. Maður reynir bara að standa sig vel með sínu félagsliði og ágætlega í þau skipti sem maður kemur inn í landsliðinu. Ég hugsa að það hafi bara gengið nokkuð ágætlega ef maður horfir á það varðandi mínútufjölda og annað.“
Viðar á ekki von á því að vera valinn í íslenska landsliðið á næstunni.
„Nú horfi ég á það þannig að Alfreð er ekki í hópnum en samt er ég ekki valinn, ég má þá reikna með því að það verði ekki talað við mig seinna. Ég veit ekki hvað á að breytast, ég hef alltaf verið að skora mörk. Maður veit aldrei en miðað við hvernig ég sé þetta núna þá tel ég ekki miklar líkur á því. Ég er í raun búinn að sætta mig við það ef svo verður.“
Viðar hefur trú á núverandi leikmannahóp landsliðsins og býst við því að liðið muni ná í úrslit.
„Klárlega, eins og þeir hafa gert síðustu ár. Þetta eru frekar mikið sömu leikmenn, vantar náttúrulega Alfreð og Gylfa, það er mikið högg fyrir liðið. Segjum sem svo að liðið vinni tvo leiki af þremur, þá er það í toppmálum. Við ættum að geta verið í efstu tveimur sætunum í þessum riðli.“
Viðtalið við Viðar Örn og þátt 433.is síðan í gær má sjá hér fyrir neðan.