Sveinn Aron Guðjohnsen framherji OB í Danmörku er að undirbúa sig undir Evrópumót U21 árs landsliða sem hefst í næstu viku.
Framherjinn öflugi var einn besti leikmaður liðsins í undankeppninni og átti stóran þátt í því að koma liðinu inn á mótið. Um er að ræða í annað skiptið í sögunni sem Ísland kemst inn á mótið.
Sveinn Aron ræðir við Fótbolta.net í dag í lið sem heitir Hin hliðin, þar fær hann eina spurningu um hvaða liði hann myndi aldrei spila með.
„ÍBV, gæti ekki hugsað mér að búa þar,“ segir Sveinn Aron og á þar við að hann gæti ekki hugsað sér að búa í Vestmannaeyjum.
Annað svar sem vekur svo athygli er svarið við spurningu um besta þjálfara sem hann hefur haft. „Addi Vidd og hinn þarna sem aðstoðaði hann í u21,“ sagði Sveinn við Fótbolta.net en aðstoðarmaður Arnars var Eiður Smári Guðjohnsen, faðir Sveins.