Kári Árnason, landsliðsmaður og leikmaður Víkings Reykjavíkur, var gestur í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf. Þar fór Kári ásamt þáttastjórnendunum Huga Halldórssyni og Gunnari Sigurðssyni, yfir víðan völl.
Tapið erfiða gegn Ungverjalandi í úrslitaleik um laust sæti á Evrópumótinu bar á góma. Íslenska landsliðið komst yfir í leiknum og hélt forystunni allt þangað til á lokamínútunum þegar ungverska liðið náði að snúa leiknum sér í vil með tveimur mörkum.
Kári segir að það hafi reynst erfitt að koma huganum frá leiknum.
„Maður hugsar um þetta enn þann dag í dag. Það poppar upp annað slagið þetta leiðindaratvik.“
Stemmningin í búningsklefa íslenska landsliðsins var skiljanlega þung eftir að draumurinn um sæti á stórmóti í þriðja skiptið í röð hafi fokið út í veður og vind.
„Það var bara algjör þögn, þetta var alveg hrikalegt. Síðan töluðu menn bara saman þegar við komum aftur upp á hótel. Mönnum var bara leyft að kljást við þetta hver í sínu horni. Það voru bara allir tómir, við vorum svo nálægt því (að komast á EM).“
Kári segir að það sé erfitt að benda á eitthvað eitt sem hafi farið úrskeiðis í leik íslenska liðsins. Eitthvað hafi verið öðruvísi á þessum örlagaríka degi.
„Við höfum nú varist lágt í 50 leiki eða eitthvað og alltaf leið manni svona þokkalega með það en manni leið ekki alveg eins inn á vellinum í þetta skipti, þetta var einhvernveginn ekki alveg sami þægindaramminn og maður hafði verið í áður. Ég var á nálum allan helvítis leikinn og þetta leit í raun og veru ekki eins út og það átti að gera.“
„Skipulagið var ekki alveg eins og það hefur verið. Það var gott í undanúrslitunum á móti Rúmeníu en þetta var bara dagsformið á þessum tíma. Svo vorum við náttúrulega bara ekki nógu formi. Helmingurinn af liðinu var ekki búinn að spila og svo framvegis. Þá kannski byrjaði kannski að slitna fullmikið á milli okkar og liðið fór að verjast full lágt of snemma í leiknum.“
Hlusta má á viðtalið við Kára Árnason í Fantasy Gandalf hér fyrir neðan.