Matthías Vilhjálmsson framherji FH í efstu deild karla í knattspyrnu fékk spenandi tilboð frá Noregi skömmu fyrir jól. Hefði Matthías tekið tilboðinu hefði hann þurft að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.
Norska félagið Vålerenga bauð Matthíasi að gerast aðstoðarþjálfari liðsins en framherjinn knái gekk í raðir FH frá Vålerenga fyrir síðustu leiktíð.
„Það áttu sér stað samtöl en ég vil halda áfram að spila fótbolta. Ég hef klárað UEFA B gráðuna og ætla að halda áfram með þetta, ég þarf svo að finna út úr því hvort ég vilji fara út í þjálfun af fullum krafti,“ sagði Matthías í samtali við 433.is í dag.
„Ég lít á þetta sem flotta viðurkenningu fyrir mig að fá svona boð. Þetta var mjög stórt tækifæri fyrir mig en ég vil halda áfram að spila fyrir FH og ná árangri þar,“ sagði framherjinn geðþekki.
Matthías lék með Vålerenga í tvö tímabil og var vel liðin hjá félaginu. Hjá Vålerenga eru þeir Viðar Örn Kjartansson og Brynjar Ingi Bjarnason sem félagið keypti í vikunni.
Matthías er 34 ára gamall en hann átti góð níu ár í atvinnumennsku áður en hann snéri heim í FH.