Roberto Peidro læknir sem hefur meðhöndlað Kun Aguero til lengri tíma segir hjartavandamál hans á engan hátt tengd COVID bóluefnum.
Aguero greindi frá því í gær að hann væri hættur í fótbolta, lækna töldu það bestu lausnina. Aguero hafði upplifað hjartavandamál innan vallar fyrr á þessu ári.
Lítil rifa er í hjarta Aguero sem tengist líklega vírus. „Líklegasta niðurstaðan er að svona rifa komi eftir vírus sem hann hefur fengið á lífsleiðinni. Þetta hefur svo bara ekki komið fram fyrr,“ sagði Peidro en um er að ræða eins millimetrs rifu.
„Þetta hefur ekkert með COVID eða COVID bóluefni að gera.“
„Ég talaði ekki við neinn um þetta áður en Aguero greindi frá því að hann væri hættu. Hann gaf mér leyfi til að ræða þetta núna.“
Peidro segir að Aguero muni eiga mjög eðlilegt líf. Hann útskýrði að mikið álag atvinnumanns í fótbolta væri ekki æskilegt, bæði út frá átökum og svo andlegu álagi sem fylgir því.