Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, segir að félagið skoði nú að leggja hybrid-gras. Um er að ræða blandaða leið sem inniheldur gervigras og alvöru gras. Flest stærstu lið Evrópu nota þessa lausn. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
FH-ingar vilja byrja á að setja þetta á æfingavöll félagsins og ef vel tekst til að setja það einnig á aðalvöll félagsins.
Ljóst er að íslensk félög þurfa að leita lausna til að hafa aðstöðu sem virkar stærstan hluta ársins. Verið er að lengja tímabilið og fjöldi félaga er því á leið á gervigras. Það vilja FH-ingar ekki gera.
„Við erum í þeim fasa að skoða tæknilega útfærslu og kostnað við að leggja hybrid-gras á æfingasvæðið okkar, sem átti að leggja í ágúst síðastliðnum. Þá átti að sá í, en það dróst og nú erum við að skoða að fara í þessa blöndu. Ég veit að KRingar eru líka að skoða að fara þá leið í sínum framkvæmdum,“ segir Viðar um áform FH við Fréttablaðið.
„Vissulega er dýrt að leggja hybridgras, en það ber að skoða það að við getum notað völlinn átta mánuði á ári. Við erum búnir að funda með tveimur framleiðendum hybridgrasvalla og það styttist í að það liggi fyrir hver kostnaðurinn er við að leggja völlinn og svo að halda honum við,“ segir Viðar.