Amanda Andradóttir er á förum frá Valarenga í Noregi og mun leika í sterkari deild á næstu leiktíð. Þetta herma öruggar heimildir 433.is.
Mun hún skrifa undir samning hjá nýju félagi á næstu dögum.
Amanda, sem verður 18 ára síðar í mánuðinum, lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir Íslands hönd í ár. Hún valdi það að leika fyrir íslenska landsliðið fram yfir það norska. Gat hún valið á milli landanna þar sem faðir hennar er íslenskur og móðir hennar norsk.
Amanda hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Valarenga. Hún var til að mynda valin efnilegasti leikmaður félagsins í ár og þá var mark hennar einnig valið það flottasta í norsku úrvalsdeildinni. Markið, sem hún skoraði gegn Klepp, er einnig tilnefnt sem mark ársins í öllum deildum í Noregi í karla -og kvennaflokki. Hægt er að kjósa mark hennar með því að smella hér.
Áður en Amanda fór til Valarenga í fyrra lék hún með Nordsjælland í Danmörku.
Hér fyrir neðan má sjá mark Amöndu gegn Klepp.