fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
433Sport

Grunur um misskilning þegar rætt var um aðkomu KSÍ að þagnarskyldusamningi

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. desember 2021 15:27

Þórhildur Gyða fékk 1,5 milljón í miskabætur frá Kolbeini árið 2018.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óháð nefnd ÍSI hefur lokið rannsókn á málefnum KSÍ. Nefndin var sett af stað eftir umræðu og umfjöllun um málefni landsliðsmanna og ásakanir um kynferðisbrot. Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, er formaður úttektarnefndarinnar. Þar eiga jafnframt sæti Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, og Rán Ingvarsdóttir, lögfræðingur.

Í einum kafla skýrslunnar er fjallað um málefni Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur og Kolbeins Sigþórssonar. Þórhildur kærði Kolbein fyrir ofbeldi árið 2017 en skömmu síðar var samið í málinu og greiddi Kolbeinn henni og vikonu hennar bætur. Hann hefur þó hafnað því að hafa beitt konurnar ofbeldi.

Mál Þórhildar Gyðu og Kolbeins Sigþórssonar úr skýrslu nefndarinnar:

Nefndir fjallar um það mál og segir. „Mánudaginn 19. mars 2018 sendi Arnar Þór Guttormsson tölvupóst á almennt netfang KSÍ, sem og formann og framkvæmdastjóra KSÍ, auk fimm starfsmanna sambandsins.44 Í tölvupóstinum vakti Arnar athygli á því að dóttir hans hefði nýlega kært landsliðsmann fyrir líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni en þar segir m.a.:

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum um helgina þegar dóttir mín sagði mér að maðurinn sem hún kærði nýlega fyrir líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni á skemmtistað í Reykjavík hefði verið valinn aftur í íslenska landsliðið í knattspyrnu. Kæran hefur ekki verið látin niður falla mér vitanlega. Í ljósi umræðu undanfarinna missera heima og erlendis (me too) þykir mér vont að þetta sé það sem knattspyrnuhreyfingin hefur til málanna að leggja. Nú má vel vera að viðkomandi sé sterkur kandidat til að senda andstæðinga okkar á HM heim með skottið á milli lappanna en síðast þegar ég heyrði var enginn þeirra með píku til að rífa í og setja leik þeirra þannig úr skorðum. Sé þetta ákvörðun sem ekki verður haggað finnst mér sanngjarnt að ég segi frá því að ég keypti 2 miða á vináttuleik Íslands og Peru hér í New Jersey fyrir 50.000 isk. en hef engan áhuga á því að fara með son minn að sjá manninn sem réðist á systur hans leika sér með bolta. Mun ég þess vegna hafa samband við yfirvöld hér í USA og vara menn þar á bæ við að mögulega hættulegur einstaklingur verði á ferð með íslenska landsliðinu hér síðar í mánuðinum. Þetta þykir mér svartur blettur á annars mögulega góðri landkynningu.“

Í tölvupóstinum vísar Arnar einnig til þess að hann hafi vitneskju um að annar leikmaður liðsins hafi fengið á sig kæru vegna kynferðisofbeldis og líkamsárásar:

„Ég vil einnig láta þess getið að ég veit að annar leikmaður liðsins fékk á sig kæru fyrir ca.2 árum. Þar sem hann barði og nauðgaði ungri konu í bíl í miðbæ Reykjavíkur. Sú kæra var látin niður falla. Því miður veit ég með vissu að það var ekki gert vegna þess að nauðgunin átti sér ekki stað (Ísland er lítið land). Ég mun hins vegar ekki ræða það frekar vegna þess að ég gengst fyllilega undir þá samfélagslegu ábyrgð að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Það að leikmenn sem eru með opnar ákærur hjá lögreglu eða dómsmálayfirvöldum fyrir ofbeldisbrot séu engu að síður valdir í liðið, get ég hins vegar ekki sætt mig við og ég á frekar von á því að íslenska þjóðin sé á sama máli og jafnvel erlendir aðdáendur íslenska knattspyrnuundursins.

Í Skandinavísku velferðar samfélagi gengur ekki að hetjur og fyrirmyndir unga fólksins okkar séu í raun og veru nauðgarar og ofbeldismenn, það endar ekki vel. Ég vænti þess að skýr skilaboð verði send til leikmanna allra liða um að ofbeldi verði ekki liðið hvort sem er innan eða utan vallar. Einnig vona ég heitt og innilega að ofbeldis og nauðgunarmenning verði gerð útlæg úr íslenska fótboltanum með öllum ráðum.
Með vinsemd og virðingu,
Arnar Þór Guttormsson, sonur konu, eiginmaður konu og faðir konu (og einnig faðir pilts sem
elskar fótbolta).

Í tölvupóstinum kom einnig fram að Arnar hefði sent afrit á embætti forseta Íslands þar sem honum fyndist eðlilegt að forseti Íslands vissi allt um þau málefni sem hann veldi að styðja. Í þeim pósti hefði hann nafngreint viðkomandi leikmann svo forseti gæti kynnt sér málið „í viðkomandi stofnunum“.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, svaraði erindi Arnars með tölvupósti sama dag en hann var þá staddur í San Francisco ásamt A-landsliði karla og starfsfólki KSÍ. Þar kom fram að þetta væri það fyrsta sem hann heyrði af málinu en hann vildi að Arnar vissi að hann tæki því mjög alvarlega. Í pósti Guðna sagði síðan: „Ég mun kanna þetta mál strax en ég bið þig vinsamlegast um að nafngreina þann leikmann sem þú ert að vísa til, að öðrum kosti liggja allir leikmenn liðsins undir grun. Við getum síðan rætt málið frekar í kjölfarið.“

Í svari Arnars við tölvupóstinum kl. 10:53 næsta dag kemur fram hver leikmaðurinn er sem um ræðir en hann verður eftirleiðis auðkenndur sem B í þessari skýrslu. Þá sagði að kærurnar væru enn á borði lögreglu samkvæmt síðustu upplýsingum frá réttargæslumanni dóttur hans. Í svarpósti Guðna kl. 11:50 sama dag kemur fram að KSÍ sé „í mun að standa rétt að þessu máli“ og að hann vildi gjarnan heyra í honum símleiðis síðar ef það væri í lagi.

Af tölvupóstsamskiptum sem áttu sér sér stað milli Arnars og Guðna verður ráðið að Guðni hafi óskað að ræða við réttargæslumann dóttur hans til að átta sig frekar á málsatvikum og kærunni og að Guðni hafi síðan rætt við Arnar og eiginkonu hans í síma. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í viðtölum fyrir nefndinni mun Guðni í því símtali einnig hafa spurst fyrir um hitt málið sem Arnar vísaði til í tölvupósti sínum og laut að því að landsliðsmaður hefði verið kærður fyrir nauðgun sem átt hefði sér stað í miðbæ Reykjavíkur. Mun Arnar hafa svarað því að það væri ekki hans að segja frá því máli og ekki sagt Guðna nánari deili á landsliðsmanninum sem átti í hlut.

Í kjölfar símtalsins sendi Arnar Guðna tölvupóst 22. mars 2018 en þar sagði m.a. svo:

„Við ræddum við dóttur okkar og samkvæmt upplýsingum frá réttargæslumanni og lögreglu þá verður sáttameðferð að fara fram í gegnum lögreglu þar sem málið er enn í rannsókn. Þetta útilokar ekki möguleikann á sáttum. Við viljum biðja þig að halda trúnað við okkur gagnvart [B] eða nokkrum öðrum er varðar atvikalýsingu og aðrar upplýsingar sem við deildum með þér þegar við ræddum við þig í síma. “

Í viðtali Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur við úttektarnefndina kom fram að þessi samskipti foreldra hennar við Guðna hefðu verið með fullri vitund og samþykki hennar. Trúnaðurinn sem faðir hennar hafi óskað eftir hafi snúið að atvikalýsingunni þannig að tryggt væri að B fengi ekki vitneskju um atvikalýsinguna og gæti hagað framburði sínum hjá lögreglu í samræmi við það.

Sama dag, þ.e. 22. mars 2018, hafði sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu samband við Guðna Bergsson í tölvupósti þar sem hann var beðinn um að hringja í hana við tækifæri „vegna máls sem er til rannsóknar og meintra afskipta KSÍ af því“. Sama dag mun Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, einnig hafa haft samband við Víði Reynisson, sem var þá starfsmaður KSÍ og öryggisstjóri í ferðinni, og spurt hvort eitthvað væri hæft í því að KSÍ væri að hafa afskipti af rannsókn málsins. Víðir mun hafa sagt henni að svo væri ekki.

Samkvæmt frásögnum þeirra sem voru með landsliðinu í för í Bandaríkjunum í mars 2018 mun það hafa verið samdóma álit Guðna og Klöru að B yrði að leysa úr þessum málum áður en hann yrði valinn aftur í landsliðið. Í viðtölum kom einnig fram að Guðni, Klara og Víðir Reynisson hefðu átt fund með B í kjölfarið. Hann hafði upplýst þau um að hann hefði verið drukkinn kvöldið sem frásögn Arnars laut að og mögulega slegið til Þórhildar Gyðu, dóttur hans. Á öðrum fundum mun hafa verið rætt að ef B yrði leikfær gæti hann reynst landsliðinu mjög mikilvægur HM í Rússlandi, en B mun m.a. hafa verið tekinn í hópinn til að meta hvort af því gæti orðið. Engu að síður hafi verið afráðið að B myndi fara aftur til Íslands og svara þeirri kæru sem fram var komin. Í tölvupósti frá 25. mars 2018 frá Guðna Bergssyni til sviðsstjóra ákærusviðs lögreglunnar sem úttektarnefndin hefur fengið í hendur kemur fram að B komi til landsins þennan dag og verði laus í skýrslutöku næsta dag.

Heimir Hallgrímsson ræddi við nefndina:

Heimir Hallgrímsson, þáverandi þjálfari A-landsliðs karla, lýsti því fyrir nefndinni að bréfið sem KSÍ barst um kæruna á hendur B hefði verið tekið mjög alvarlega og það hefði orðið til þess að Guðni og Klara ákváðu að B yrði sendur heim. Það hafi „enginn verið með aðrar hugsanir en að hann myndi bara fara heim og klára það dæmi og Guðni átti að aðstoða hann með það“. Heimir sagði enn fremur að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hann heyrði um það að leikmaður hefði beitt einhvern ofbeldi og hann taldi málið líta þannig út að það skaðaði þá góðu ímynd sem landsliðið hafði á þessum tíma. B hefði auk þess glímt við meiðsli og hvort eð er ekki getað tekið þátt í æfingum liðsins.

Mögulegur misskilningur um þagnarskyldusamningi:

Við athugun sína hefur úttektarnefndin ekki fundið nein gögn eða heyrt frásagnir um að lögmaður á vegum KSÍ hafi boðið Þórhildi Gyðu samning þar sem hún tækist á herðar skuldbindingu um að segja ekki frá atvikum að baki kæru hennar um árás og áreitni B á skemmtistaðnum B5 í Reykjavík árið 2017. Í viðtölum sínum við nefndina könnuðust hvorki Guðni Bergsson né Klara Bjartmarz við slíkan samning. Í viðtali sínu við nefndina greindi Klara jafnframt frá því að þrátt fyrir að komið hafi fyrir að Guðni keypti ráðgjafaþjónustu sem formaður KSÍ án þess að hún vissi sæi hún engu að síður alla reikninga sem bærust KSÍ. Hún hefði kannað málið sérstaklega ásamt fjármálastjóra KSÍ eftir að umræða kom upp um aðild KSÍ að boði um þagnarskyldusamning í fjölmiðlum og engan reikning fundið frá lögmönnum frá vorinu 2018 þegar formaður KSÍ var í samskiptum við föður Þórhildar vegna málsins.

Frásögn Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur í viðtali við nefndina gefur einnig til kynna að það megi vel vera að hugmyndir um aðkomu KSÍ að þagnarskyldusamningi byggist á misskilningi, sem megi rekja til þess að Hörður Felix Harðarson, annar lögmanna B, gegni ákveðnum trúnaðarstörfum fyrir KSÍ með setu í nefndum. Hörður Felix hefur afdráttarlaust og opinberlega hafnað því að hann hafi komið að málinu fyrir hönd KSÍ eða að hann hafi sett fram boð um þagnarskyldusamning fyrir hönd umbjóðanda síns.

Við athugun úttektarnefndarinnar hefur ekki komið fram að stjórn KSÍ hafi á nokkru stigi fengið upplýsingar um tölvupósta Arnars Þórs Guttormssonar, föður Þórhildar Gyðu, til KSÍ. Guðni Bergsson lýsti málinu hins vegar þannig fyrir nefndinni að hann hefði fengist við það á nokkurra daga tímabili erlendis í þremur tölvupóstum og með símtali á meðan æfingaferð landsliðsins stóð. B hefði síðan verið sendur heim úr þeirri æfingaferð. Faðir Þórhildar hefði þakkað honum fyrir skjót viðbrögð í málinu, sagt að málið væri nú komið í farveg með réttargæslumanni og beðið Guðna um algjöran trúnað í málinu. Málið hefði síðan endað með einkaréttarlegri sátt á milli málsaðila án aðkomu KSÍ.

Klara Bjartmarz tók í sama streng í viðtali sínu við nefndina. Guðni hefði svarað föður konunnar strax og það mál hefði farið í farveg þegar í stað. Málið hefði verið algjörlega í baksýnisspeglinum hjá henni og hún hefði verið í góðri trú með að því væri bara lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Manchester United enn og aftur grátt leikið af skyndibitakeðjunni

Manchester United enn og aftur grátt leikið af skyndibitakeðjunni
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Isak og Nuno bestir

Isak og Nuno bestir
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Ungstirni United með háar launakröfur – Svona myndi hann raðast á listann yfir þá launahæstu á Old Trafford

Ungstirni United með háar launakröfur – Svona myndi hann raðast á listann yfir þá launahæstu á Old Trafford
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Þungavigtarbikarinn rúllar af stað – Svona eru riðlarnir og dagskráin

Þungavigtarbikarinn rúllar af stað – Svona eru riðlarnir og dagskráin
433Sport
Í gær

Forsetinn svarar sögusögnunum um Mourinho – Er orðaður við Everton

Forsetinn svarar sögusögnunum um Mourinho – Er orðaður við Everton
433Sport
Í gær

Næsti Salah endar líklega hjá City

Næsti Salah endar líklega hjá City