Þremur leikjum er nýlokið í ensku úrvalsdeildinni.
Chelsea 1-1 Burnley
Chelsea tók á móti Burnley og tókst ekki að sigra.
Þrátt fyrir að hafa ekki verið nógu beittir sóknarlega í fyrri hálfleik þá leiddi Chelsea í leikhléi með marki Kai Havertz á 33. mínútu. Hann skoraði eftir flotta fyrirgjöf Reece James.
Chelsea fékk sín færi til að tvöfalda forystu sína í seinni hálfleik en það tókst ekki. Þess í stað jafnaði Matej Vydra fyrir Burnley á 79. mínútu. Lokatölur urðu 1-1.
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í leiknum og lék í 70 mínútur.
Chelsea er þrátt fyrir jafnteflið enn á toppi deildarinnar með 26 stig. Burnley er í átjánda sæti með 8 stig.
Crystal Palace 2-0 Wolves
Crystal Palace heldur góðu gengi sínu áfram. Liðið vann Wolves í Lundúnum í dag.
Markalaust var eftir fyrri hálfleik en eftir klukkutíma leik tók Palace forystuna. Þá skoraði Wilfried Zaha eftir undirbúning James McArthur.
Conor Gallagher innsiglaði 2-0 sigur heimamanna á 78. mínútu.
Crystal Palace er í níunda sæti með 15 stig. Wolves er sæti ofar með stigi meira.
Brentford 1-2 Norwich
Norwich vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í nýliðaslag gegn Brentford.
Mathias Normann kom gestunum í Norwich yfir strax á 6. mínútu. Teemu Pukki tvöfaldaði forystuna með marki af vítapunktinum eftir tæpan hálftíma leik.
Rico Henry minnkaði muninn fyrir Brentford á 60. mínútu. Nær komust þeir ekki. Lokatölur 1-2.
Brentford er í fjórtánda sæti með 12 stig. Norwich lyfti sér með sigrinum upp fyrir Newcastle og er nú í 19. sæti með 6 stig. Newcastle á þó leik til góða gegn Brighton á eftir.