Á heimasíðu danska knattspyrnusambandsins, DBU, er hægt að lesa um málið og leikskýrslu dómarans þar sem hann skýrði frá því sem gerðist eftir leik. „Þegar dómararnir gengu út af gervigrasinu var einn stuðningsmaður Karlslunde IF mjög ágengur og hindraði dómarana í að komast leiðar sinnar og byrjaði að hrópa: „Þið eru svo lélegir, þú ert svo lélegur dómari“. Viðkomandi kom síðan mjög nálægt dómurunum,“ segir í leikskýrslunni og síðan segir: „Rétt eftir þetta atvik byrjaði einn leikmaður Karslunde IF að sýna af sér ógnandi hegðun og var líkamstjáning hans mjög árásargjörn og orðfærið við dómarana einnig, hann sagði: „Þið eruð fávitar, þið eru helvíti lélegir.“
Leikmaðurinn elti síðan dómarana til búningsklefanna og hélt áfram að láta óviðeigandi orð falla sem og að sýna árásargjarna líkamstjáningu. Að lokum fékk hann rautt spjald frá dómaranum.
Í leikskýrslunni kemur einnig fram að stuðningsmaðurinn, sem fyrr er getið, sé ættingi leikmannsins og staðfesti Karlslunde IF að svo væri, um 75 ára gamla ömmu leikmannsins væri að ræða. Segir í svari félagsins að dómarinn hafi látið hana heyra það. „Einn úr þjálfarateyminu hefur skýrt frá því að dómarinn hafi sagt: „Haltu kjafti gamla kerling og þrífðu gleraugun,“ við ömmuna.
Karlslunde IF fékk aðvörun frá aganefndinni vegna málsins.