Leikmenn Vals í karlaflokki gerðu sér glaða daga um helgina þegar þeir skelltu sér til Barcelona. Leikmennirnir höfðu safnað saman í sektarsjóð í sumar.
Gengi Valsmanna innan vallar var ekki gott í sumar og móralskur hittingur á erlendri grundu hefur vafalaust þjappað hópnum saman.
Leikmenn Vals flugu út með Play þar sem gleðin var við völd. Flugfreyjan í fluginu hafði leikmenn Vals að háð og spotti við lendingu í Katalóníu.
„Við lendingu sagði flugfreyjan í kallkerfið að Valsmenn þyrftu sérstaklega að passa upp á að gleyma engu í vélinni, því þeir væru vanir að tapa og það væri verra að tapa vegabréfinu,“ segir heimildarmaður DV sem var um borð í vélinni. Grínið vakti mikla lukku á meðal farþega í vélinni.
Heimildarmaðurinn sagði að Valsmenn hefðu skemmt sér vél í fluginu, skálað og rætt um málefni líðandi stundar hjá KSÍ þar sem mikið hefur gengið á.
Með í för voru allar helstu stjörnur liðsins en þar á meðal var Hannes Þór Halldórsson markvörður liðsins. Hannes er í óvissu með framtíð sína en hann hefur fengið þau skilaboð frá félaginu að hann megi fara. Valur hefur samið við Guy Smit sem kemur til félagsins frá Leikni.