Guðjón Baldvinsson framherji KR hafði ætlað sér að hætta í fótbolta en eftir fund með Rúnari Kristinssyni ætlar hann að kýla á hið minnsta eitt tímabil til viðbótar.
Guðjón gekk í raðir KR fyrir síðustu leiktíð og hafði farið af stað með látum, hann skoraði tvö mörk í fyrstu fjórum deildarleikjum liðsins. Guðjón lék hins vegar ekkert frá 17 maí vegna meiðsla á hné.
„Það var hugsunin í sumar þegar meiðslin voru sem verst að hætta bara. Ég var kominn í fínt form og datt svo út vegna meiðsla. Ég átti góðan fund með þjálfaranum í gær og við ætlum að láta reyna á þetta. Hvort hnéð haldi ekki. Við tókum þá ákvörðun að reyna að kýla á þetta,“ sagði Guðjón í samtali við 433.is í dag.
Guðjón er 35 ára gamall en byrjun hans hjá KR hafði lofað góðu. „Ég var loksins byrjaður að skora aftur, bæði á undirbúningstímabilinu og í byrjun móts. Ég meiddist þarna undir lok undirbúningstímabil á gervigrasi. Ég er byrjaður að skokka eftir aðgerðina á hné. Við látum á þetta reyna.“
Guðjón hefur átt frábæran feril bæði hér á landi og í atvinnumennsku. Hann vill setja skóna á hilluna á sínum forsendum. „Við getum ekki endað þetta svona,“ sagði framherjinn geðþekki að lokum.
KR bætti við sig tveimur sóknarmönnum í gær þegar Stefan Ljubicic og Sigurður Bjartur Hallsson sömdu við liðið. Fyrir er félagið með Guðjón, Kjartan Henry Finnbogason og Kristján Flóka Finnbogason í fremstu víglínu. Guðjón er með samning við KR sem rennur út næsta haust.