Margir stuðningsmenn voru klæddir sem arabískir olíufurstar með höfuðfat og fána og fögnuðu yfirtöku PIF mjög enda var fyrri eigandi liðsins, Mike Ashley, vægast sagt illa liðinn af stuðningsmönnunum. Þeir virðast ekki kippa sér upp við að það er Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu, sem fer fyrir PIF. Hann er þekktur fyrir að víla ekki fyrir sér að láta fangelsa eða myrða þá sem standa í vegi fyrir honum.
Til dæmis telja bandarískar leyniþjónustustofnanir ekki nokkurn vafa leika á að hann hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi sem var myrtur á hrottalegan hátt á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl fyrir þremur árum.
En einhverjir eru ósáttir við yfirtökun, en hvort það eru stuðningsmenn Newcastle er önnur saga, því fyrir leikinn í gær var vörubíl ekið framhjá leikvanginum og var stórt skilti á honum með myndum af Khashoggi og bin Salman. Þetta vakti að vonum mikla athygli en samt sem áður virtist flestum stuðningsmönnum Newcastle vera alveg sama um þetta.
Í áhorfendastúkunni mátti síðan sjá Yasir Al-Rumayyan, stjórnarformann PIF, ásamt Amanda Staveley, fulltrúa minnihlutahóps eigenda, horfa á leikinn.
Newcastle tapaði leiknum 2-3 en líklegt má telja að þetta hafi verið síðasti leikur liðsins undir stjórn Steve Bruce.