Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segist hafa heimildir fyrir þessu. Segir blaðið að vegna þessa hafi Arnar Þór Viðarsson, þjálfari landsliðsins, ekki getað valið alla þá leikmenn sem hann vildi velja fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein. Margir leikmenn, sem hafa verið lykilmenn í liðinu á undanförnum árum, voru ekki í hópnum fyrir þessa leiki.
Áður hefur verið skýrt frá því að Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson séu grunaðir um brot en nöfn hinna þriggja hafa ekki komið fram opinberlega en Morgunblaðið segir þá alla hafa verið fastamenn í landsliðinu undanfarinn áratug og hafi leikið fjölda landsleikja. Segir blaðið að á meðan mál þeirra séu til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ, séu þeir ekki gjaldgengir í landsliðið.
Í viðtali í þættinum 433.is á Hringbraut í gærkvöldi sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, að ekki sé búið að setja reglur innan KSÍ um viðbrögð sambandsins þegar ásakanir koma fram um ofbeldisbrot en leikmenn séu nú útilokaðir á meðan á lögreglurannsókn stendur yfir. Þannig sé það gert víða, til dæmis hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.
Ítarlegt viðtal við Vöndu: Tækifæri í krísu – Leikmenn undir lögreglurannsókn útilokaðir