Guðni Bergsson formaður KSÍ segir að mikið hafi verið gert úr því þegar Þogrímur Þráinsson, starfsmaður A-landsliðs karla braut sóttvarnarreglur UEFA í október. Þorgrímur gekk þá inn á Laugardalsvöll eftir sigur á Rúmeníu í undankeppni EM, þar virti hann ekki tveggja metra regluna eða grímuskylduna.
Málið vakti mikla athygli í október, nokkrum dögum eftir leik greindist Þorgrímur með COVID-19 veiruna. „Samkvæmt reglum UEFA og íslenskum reglum sem KSÍ vinnur eftir er starfsmönnum landsliðsins og leikmönnum ekki heimilt að knúsast og faðmast eftir leiki,“ sagði í frétt sem Benedikt Bóas Hinriksson skrifaði í Fréttablaðið.
Guðni ræddi málið við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football í gær og Hjörvar spurði Guðna að því hvort þetta brot hafi skaðað þá von um að Íslandsmótin í fótbolta gætu haldið áfram.
„Mér fannst miðað við þau mistök, menn gættu ekki að sér í hita augnabliksins og gleðinni. Þá fannst mér mikið úr því gert, í öllum þessum hundruðum og þúsundum atviki í þessari búblu. Þarna varð mönnum á, að stilla því svona upp sem miklum mistökum. Þetta fékk mikið sviðsljós,“ sagði Guðni í þættinum.
Hann segir fjölmiðla hafa gengið full harkalega fram í málinu. „Ég held að þetta hafi þá skaðað það að það þyrfti að passa mikið upp á íþróttir og fótboltann, mér fannst viðbrögðin við því. Mér fannst fjölmiðlar stýra þessu full harkalega“