Miðjumaðurinn Emil Pálsson, hefur skrifað undir þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Sarpsborg 08.
Emil kemur á frjálsri sölu til Sarpsborg en samningur hans við Sandefjord rann út á áramótum. Emil hafði verið í herbúðum Sandefjord síðan árið 2017 og taldi að nú væri rétti tímapunkturinn til að prófa eitthvað nýtt.
„Ég hef fundið fyrir miklum áhuga frá Sarpsborg. Ef ég held rétt á spilunum vonast ég til að verða lykilhluti af liðinu á komandi tímabili. Ég hef rætt við leikmenn sem hafa spilað hér og hef bara heyrt jákvæða hluti,“ sagði Emil eftir að hafa skrifað undir samning hjá Sarpsborg.
Emil spilaði 24 leiki af 30 á síðasta tímabili með Sandefjord sem var nýliði í deildinni.
Sarpsborg endaði í 12. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili undir stjórn sænska knattspyrnustjórans Mikael Stahre.
View this post on Instagram
Emil var eftirsóttur af liðum á Norðurlöndunum, Mið-Evrópu og á Íslandi og hefur nú ákveðið að spila áfram í efstu deild Noregs. Forráðamenn Sarpsborgar hafa fylgst lengi með honum.
„Emil er leikmaður sem við höfum fylgst vel með alveg síðan hann spilaði á Íslandi með FH. Hann er miðjumaður sem uppfyllir allar þær kröfur sem við höfum inn á vellinum,“ sagði Thomas Berntsen, íþróttastjóri Sarpsborgar.
Emil er uppalinn hjá BÍ/Bolungarvík frá Ísafirði, hann hefur einnig spilað með FH og Fjölni á sínum ferli. Hann varð Íslandsmeistari í þrígang hjá FH.
Árið 2015 var Emil kosinn besti leikmaður ársins í Pepsi-deildinni af leikmönnum deildarinnar. Emil lék þá stórt hlutverk bæði með liði Fjölnis framan af tímabili og síðan með FH þegar leið á tímabilið.
Þá á Emil að baki 1 A-landsleik og 22 landsleiki með yngri landsliðum Íslands, í þeim leikjum hefur hann skorað tvö mörk.