Þær Guðbjörg Fanndal Torfadóttir, formaður knattspyrnudeildar Aftureldingar, og Gullý Sig, sem hefur starfað sem þjálfari, stjórnar -og formaður svo eitthvað sé nefnt, hafa ákveðið að gefa kost á sér í stjórn Knattspyrnusambands Íslands fyrir komandi aukaþing sambandsins þann 2. október.
Þær bætast í hóp þeirra Ásgríms Helga Einarssonar, formanns knattspyrnudeildar Fram, og Helgu Helgadóttur, þjálfara og íþróttastjóra knattspyrnudeildar Hauka, sem hafa einnig ákveðið að gefa kost á sér í stjórnina.
Áður hafði Vanda Sigurgeirsdóttir boðið sig fram til formanns KSÍ. Vanda átti farsælan feril sem knattspyrnukona, bæði með félagsliði og landsliði.
Þá hefur fyrrum dómarinn Þóroddur Hjaltalín boðið sig fram í varastjórn.
Kosið verður um stjórn á aukaþinginu sem mun starfa fram í febrúar, hið minnsta. Þá verður kosið til lengri tíma.